Wednesday, April 29, 2009

Öld frá fæðingu Cartier-Bressons

Hann hataði afmælisdaga. Honum fannst við deyja á hverju kvöldi og fæðast á hverjum morgni. Að deyja væri einfaldlega að hverfa inn í myrkraherbergið fyrir fullt og allt.“ Þetta er tilvitnun úr bók ævisöguritarans Pierres Assoulines, Henri Cartier-Bresson – A Biography. Framúrskarandi bók sem allir áhugamenn um sögu ljósmyndunar, og tuttugustu aldar, ættu að lesa. Og þótt Cartier-Bresson hafi ekki þolað afmælisdaga finn ég mig knúinn til að minnast hans á aldarafmælinu, sem er í dag. Maðurinn var jú einn mikilvægasti ljósmyndari 20. aldar – mögulega sá merkasti í 170 ára sögu miðilsins.
Það er ástæðulaust að fara í mörgum orðum yfir feril Cartier-Bressons hér en svona er stutt yfirlit: Maðurinn fæddist skammt fyrir utan París þennan dag fyrir 100 árum, inn í efnaða vefnaðarfjölskyldu. Hann var alla tíð í andstöðu við borgaralegan bakgrunninn, hreifst af súrrealismanum, ætlaði að verða málari, byrjaði að ljósmynda á Leica-myndavél 24 ára gamall og sýndi hreint makalausan þroska á því sviði svo að segja frá fyrsta degi. Nokkrum árum síðar sneri hann sér að kvikmyndagerð, fór aftur í ljósmyndun fyrir heimsstyrjöldina síðari, sem fréttaljósmyndari, var í fangabúðum Þjóðverja í stríðinu en tókst að sleppa í þriðju atrennu. Hann var einn stofnenda Magnum Photos árið 1947, myndaði mikið í Asíu og í raun víða um heim, var ein helsta fyrirmynd kynslóða ljósmyndara en hætti formlega að ljósmynda upp úr 1970, til að sinna æskuástinni, málverkinu. Cartier-Bresson lést 3. ágúst 2004. Í París er safn helgað honum og hann fær meira rými en nokkur annar ljósmyndari í listasögubókum.

***

Það er full ástæða til að hylla einn mesta listamann 20. aldar á stórafmæli. Auðvitað eru það stór orð þegar sagt er að hann sé merkasti ljósmyndarinn, því það hlýtur að vera spurning um smekk. Og ósanngjarnt að líta framhjá öðrum meisturum, eins og Robert Frank og Walker Evans. En það er óumdeilt að Cartier-Bresson skapaði fleiri meistaraverk en nokkur annar ljósmyndari. Hann lagði ofuráherslu á formgerð myndanna, og hafði hið fullkomna auga – enda ekki að ástæðulausu að hann var stundum kallaður „Auga 20. aldar“. Um leið og hann klofaði yfir öldina umbylti hann ljósmyndamiðlinum að minnsta kosti tvisvar, götuljósmynduninni og blaðaljósmynduninni. Ég vil reyndar bæta portrettinu þarna inn – bók hans Photoportraits er hreint makalaust meistaraverk; það er bók til að taka með sér á eyðieyju.
Ég var hikandi þegar ég hóf lestur ævisögu Assoulines. Ástæðan líklega sú að ég hef árum saman safnað bókum eftir og um Cartier-Bresson, og hef lesið svo að segja allt sem ég hef komist yfir um þennan huldumann (sem vildi aldrei láta ljósmynda sig). En Assouline gerir afskaplega vel. Hann kynntist ljósmyndaranum síðustu árin sem hann lifði og vann traust hans. Cartier-Bresson vildi ekki gefa viðtöl – ég á bréf frá honum þar sem hann biðst undan viðtali og útskýrir að myndir hans segi allt sem segja þarf – en hann féllst stundum á að eiga samtöl við fólk sem hann ekki þekkti. Samtölum þeirra Assoulines fjölgaði og Cartier-Bresson greindi honum frá mörgu sem hann hafði þagað um, meðal annars árunum sem hann var fangi Þjóðverja.

***

Margt kemur á óvart við lesturinn. Eftir að hafa nokkrum sinnum beðið meistarann um viðtal, án árangurs, sá ég að hann lenti í því sama. Hann dáði De Gaulle meira en flesta aðra og vildi gjarnan taka af honum mynd. De Gaulle hafnaði því kurteislega í öll skiptin, eins og Cartier-Bresson hafnaði mér. Þar fannst mér sagan endurtaka sig, þótt á lítilfjörlegan hátt væri.
Cartier-Bresson er afar mikilvæg varða á leið okkar ljósmyndaranna. Menn kunna að fara aðrar leiðir en hann, en hann lagði stóran hluta undirstöðunnar. Og það sem hann getur kennt okkur öllum um formskynjun, myndbyggingu og það að grípa augnablikið er ómetanlegt. Hann er höfundur hugmyndarinnar um „hið afgerandi augnablik“, þegar höfuð, hjarta og auga eru eitt – og augnablikið er fryst til eilífðar.
Undir lok ævinnar fannst Cartier-Bresson að í heimi ljósmyndunar væri tæknin að drekkja mikilvægi þess að horfa. Myndavélum fjölgaði sífellt en ljósmyndurum fækkaði – og alltof margar myndir eyða þeirri einu réttu. Ljósmynd er einfaldlega augnabliksteikning, gerð með vél. Og það var enginn betri í þeirri teikningu en hann.

Einar Falur Ingólfsson
"Af listum". Greinin birtist 22. ágúst, 2008

No comments:

Post a Comment