Wednesday, April 29, 2009

Kreppan í ljósmyndum

Máttur góðrar og markvissrar heimildarljósmyndunar birtist þeim sem heimsækja sýningarsalinn í kjallara Norræna hússins þessa dagana. Listamennirnir sem þar sýna horfa gagnrýnum augum á Reykjavík dagsins í dag; þetta er höfuðborg á krepputímum.
Þarna má meðal annars sjá formhreinar og konkret myndir Ingvars Högna Ragnarssonar af svæðum í útjaðri höfuðborgarinnar þar sem framkvæmdir stöðvuðust við bankahrunið. Enginn hefur lokið við að rúlla út þökunum, hraðbrautin er komin en engin hús, og stór steinsteypukumbaldi er eins og skotbyrgi með Remax-skilti á.
Pétur Thomsen sýnir einnig byggingarframkvæmdir, en hans húsgrunnar eins og renna saman við ósnortna náttúru. Julia Staples myndar rúðulausa glugga í nýbyggingum, nýjar húsalengjur og enn nýrri grasflatir, og svo eru þarna afar áhrifamiklar myndir eftir Guðmund Ingólfsson af draumasvæði uppbyggingarafla liðinna missera, Borgartúni og Skúlagötu. Myndin af turnunum að rísa við síðarnefndu götuna, með byggingarkrönum og hálfköruðu tónlistarhúsinu, er áhrifamesta kreppumyndin sem ég hef séð hér til þessa.

***

Í gær var greint frá því að ríkið greiddi tvo milljarða um mánaðamótin í atvinnuleysisbætur. Og í gær spurði erlendur ljósmyndari mig að því hvernig maður sýndi kreppu í ljósmyndum. Í listaverkum yfir höfuð. Því er vandsvarað – hver skrásetjari verður að finna sína leið.
Leiðirnar eru margar; það er erfitt, en jafnframt gríðarlega mikilvægt að ástand sem þetta sé skráð, í myndum og textum, og það á markvissan hátt. Þegar ástandið batnar þurfa heimildirnar að vera til, sagan skráð, bæði á hlutlægan og huglægan hátt.
Einn þáttur í þessari heimildaöflun eru fréttaljósmyndirnar sem voru teknar meðan á búsáhaldabyltingunni, sem svo er kölluð, stóð. Þá fóru margir kollega minna á kostum, enda á það að vera köllun fréttaljósmyndarans að segja sögu – hann er í senn að sinna lesendum sínum og að skrá mannkynssöguna.
Síðan er mikilvægt að spyrja: hvernig sýnum við atvinnumissi, fyrirtækin sem verða gjaldþrota, verðbólguna, hjálpina við þá sem eru í nauðum, pólitíkina? Og allt hitt sem þarf að halda til haga?

***

Frægasta dæmið um heimildaskráningu sem þessa er vinna ljósmyndaranna sem FSA-stofnunin í Bandaríkjunum hafði í þjónustu sinni á kreppuárunum. Hlutverk FSA, Farm Security Administration, var að berjast við fátækt til sveita. Á árunum 1935 til 1944 var stofnunin með lítinn hóp ljósmyndara í þjónustu sinni, en hlutverk þeirra var að skrásetja aðstæður fólks í strjálbýlinu. Þótt hópurinn væri fámennur voru þetta engir aukvisar; meðal þeirra voru Walker Evans og Dorothea Lange, einhverjir kunnustu ljósmyndarar aldarinnar. Og fyrir tilstilli þessa fólks, og framsýni stjórnenda, og þá einkum Roy Strykers sem réði þau til starfa og hélt utan um verkefnið, eru til makalausar heimildir um þetta tímabil sögunnar.
Ásamt skáldsögu John Steinbecks, Þrúgum reiðinnar, og heimildaskrifum, á borð við hina kunnu bók Let Us Now Praise Famous Men, sem James Agee skrifaði um ferðir sínar í kreppunni með Walker Evans, þá hafa ljósmyndir FSA-ljósmyndaranna mótað þá ímynd sem kreppan í Bandaríkjunum á fjórða áratug síðustu aldar hefur í hugum manna.

***

Mikið hefur verið skrifað um þennan harðsnúna hóp FSA-ljósmyndara og það er áhugavert að lesa sumt af því í ljósi atburðanna hér á landi á síðustu mánuðum, og spurningarinnar hvernig maður ljósmyndar kreppu. Stryker reyndi ekki að hafa áhrif á það hvernig ljósmyndararnir mynduðu, enda gerir enginn góður mynd- eða ritstjóri slíka kröfu; þá ættu þeir bara að taka myndirnar sjálfir. Hinsvegar sendi Stryker sínu fólki reglulega minnispunkta. Hann taldi heppilegt að „tengja fólkið við landið í myndunum og öfugt“, og svo vildi hann sjá fyrirbæri eins og kirkjur, hlöður, réttarsali. Hann vildi myndir af daglegu lífi farandverkafólks – frægasta myndin sem kom út úr því er „Migrant Mother“ eftir Lange, og hann bað Lange til að mynda að leggja áherslu á matreiðslu, svefnaðstöðu, bænir og félagslíf í myndunum.
Í dag eru þessar ljósmyndir allar varðveittar í bókasafni bandaríska þingsins og það er afar forvitnilegt að skoða þær á netinu, allar eða að hluta; myndirnar eru um 164.000 talsins.
Eftirlætis myndir mínar í því safni eru líklega eftir Walker Evans. Ein þeirra sýnir hvítan timburvegg þar sem nokkrum slitnum hnífum, skeiðum og göfflum hefur verið raðað bak við spýtu. Allt í röð og reglu, þrátt fyrir bágborið efnahagsástandið. Þar er fyrirtaks dæmi um það hvernig mynda má kreppu – þótt við trúum því og treystum að svo slæmt verði ástandið þó aldrei hér.

Einar Falur Ingólfsson
"Af listum". Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. mars, 2009.

Öld frá fæðingu Cartier-Bressons

Hann hataði afmælisdaga. Honum fannst við deyja á hverju kvöldi og fæðast á hverjum morgni. Að deyja væri einfaldlega að hverfa inn í myrkraherbergið fyrir fullt og allt.“ Þetta er tilvitnun úr bók ævisöguritarans Pierres Assoulines, Henri Cartier-Bresson – A Biography. Framúrskarandi bók sem allir áhugamenn um sögu ljósmyndunar, og tuttugustu aldar, ættu að lesa. Og þótt Cartier-Bresson hafi ekki þolað afmælisdaga finn ég mig knúinn til að minnast hans á aldarafmælinu, sem er í dag. Maðurinn var jú einn mikilvægasti ljósmyndari 20. aldar – mögulega sá merkasti í 170 ára sögu miðilsins.
Það er ástæðulaust að fara í mörgum orðum yfir feril Cartier-Bressons hér en svona er stutt yfirlit: Maðurinn fæddist skammt fyrir utan París þennan dag fyrir 100 árum, inn í efnaða vefnaðarfjölskyldu. Hann var alla tíð í andstöðu við borgaralegan bakgrunninn, hreifst af súrrealismanum, ætlaði að verða málari, byrjaði að ljósmynda á Leica-myndavél 24 ára gamall og sýndi hreint makalausan þroska á því sviði svo að segja frá fyrsta degi. Nokkrum árum síðar sneri hann sér að kvikmyndagerð, fór aftur í ljósmyndun fyrir heimsstyrjöldina síðari, sem fréttaljósmyndari, var í fangabúðum Þjóðverja í stríðinu en tókst að sleppa í þriðju atrennu. Hann var einn stofnenda Magnum Photos árið 1947, myndaði mikið í Asíu og í raun víða um heim, var ein helsta fyrirmynd kynslóða ljósmyndara en hætti formlega að ljósmynda upp úr 1970, til að sinna æskuástinni, málverkinu. Cartier-Bresson lést 3. ágúst 2004. Í París er safn helgað honum og hann fær meira rými en nokkur annar ljósmyndari í listasögubókum.

***

Það er full ástæða til að hylla einn mesta listamann 20. aldar á stórafmæli. Auðvitað eru það stór orð þegar sagt er að hann sé merkasti ljósmyndarinn, því það hlýtur að vera spurning um smekk. Og ósanngjarnt að líta framhjá öðrum meisturum, eins og Robert Frank og Walker Evans. En það er óumdeilt að Cartier-Bresson skapaði fleiri meistaraverk en nokkur annar ljósmyndari. Hann lagði ofuráherslu á formgerð myndanna, og hafði hið fullkomna auga – enda ekki að ástæðulausu að hann var stundum kallaður „Auga 20. aldar“. Um leið og hann klofaði yfir öldina umbylti hann ljósmyndamiðlinum að minnsta kosti tvisvar, götuljósmynduninni og blaðaljósmynduninni. Ég vil reyndar bæta portrettinu þarna inn – bók hans Photoportraits er hreint makalaust meistaraverk; það er bók til að taka með sér á eyðieyju.
Ég var hikandi þegar ég hóf lestur ævisögu Assoulines. Ástæðan líklega sú að ég hef árum saman safnað bókum eftir og um Cartier-Bresson, og hef lesið svo að segja allt sem ég hef komist yfir um þennan huldumann (sem vildi aldrei láta ljósmynda sig). En Assouline gerir afskaplega vel. Hann kynntist ljósmyndaranum síðustu árin sem hann lifði og vann traust hans. Cartier-Bresson vildi ekki gefa viðtöl – ég á bréf frá honum þar sem hann biðst undan viðtali og útskýrir að myndir hans segi allt sem segja þarf – en hann féllst stundum á að eiga samtöl við fólk sem hann ekki þekkti. Samtölum þeirra Assoulines fjölgaði og Cartier-Bresson greindi honum frá mörgu sem hann hafði þagað um, meðal annars árunum sem hann var fangi Þjóðverja.

***

Margt kemur á óvart við lesturinn. Eftir að hafa nokkrum sinnum beðið meistarann um viðtal, án árangurs, sá ég að hann lenti í því sama. Hann dáði De Gaulle meira en flesta aðra og vildi gjarnan taka af honum mynd. De Gaulle hafnaði því kurteislega í öll skiptin, eins og Cartier-Bresson hafnaði mér. Þar fannst mér sagan endurtaka sig, þótt á lítilfjörlegan hátt væri.
Cartier-Bresson er afar mikilvæg varða á leið okkar ljósmyndaranna. Menn kunna að fara aðrar leiðir en hann, en hann lagði stóran hluta undirstöðunnar. Og það sem hann getur kennt okkur öllum um formskynjun, myndbyggingu og það að grípa augnablikið er ómetanlegt. Hann er höfundur hugmyndarinnar um „hið afgerandi augnablik“, þegar höfuð, hjarta og auga eru eitt – og augnablikið er fryst til eilífðar.
Undir lok ævinnar fannst Cartier-Bresson að í heimi ljósmyndunar væri tæknin að drekkja mikilvægi þess að horfa. Myndavélum fjölgaði sífellt en ljósmyndurum fækkaði – og alltof margar myndir eyða þeirri einu réttu. Ljósmynd er einfaldlega augnabliksteikning, gerð með vél. Og það var enginn betri í þeirri teikningu en hann.

Einar Falur Ingólfsson
"Af listum". Greinin birtist 22. ágúst, 2008

Ljósmyndari jökla, kúasmala og forseta

Á sýningunni Draumar um ægifegurð í íslenskri samtímalist, sem Æsa Sigurjónsdóttir listfræðingur setti saman og var sett upp í Brussel og á Kjarvalsstöðum fyrr á árinu, vakti athygli að myndröð eftir Vigfús Sigurgeirsson (1900-1984) var varpað á vegg á milli verka ungra samtímalistamanna. Þetta voru formhreinar landslagsmyndir, fjöll og stuðlaberg, skriðjöklar og eyðisandar.
Þegar ég spurði Æsu um ástæðuna fyrir þátttöku Vigfúsar sagðist hún líta á ljósmyndir hans sem ákveðið arkíf. „Þær eru sýnishorn af þessu ægifagra sjónarhorni sem íslensk landslagsljósmyndun byggist á og síðar varð einhvers konar klisja um Ísland. Þegar Vigfús byrjar að mynda er landið algjörlega ferskt. Myndir hans eru ákveðinn upphafsreitur,“ sagði hún.
Það var forvitnilegt að sjá verk Vigfúsar í fylgd samtímalistamanna, og það er ennþá forvitnilegra að skoða hrífandi sýningu á verkum hans sem var opnuð í Þjóðminjasafni Íslands um síðustu helgi. Ljósmyndasafn Íslands er innan vébanda safnsins og eftir að það fékk afnot af hinum góða myndasal á neðstu hæð safnsins hefur verið sett upp hver áhugaverða sýningin á fætur annarri, með nýrri sem eldri ljósmyndum.

***
Nafn Vigfúsar hefur einkum lifað í sambandi við skráningu hans á starfi fyrstu forseta lýðveldisins, sem hann fylgdi allar götur frá 1944. Einnig hafa menn minnst hans fyrir glæsilegt framlag á heimssýningunni í New York árið 1939, og sem fyrsta íslenska ljósmyndarans sem gaf ljósmyndir sínar út í bókum.
Það er afar mikilvægt að minna reglulega á framlag mikilvægra þátttakanda í listalífinu, sem horfnir eru af sjónarsviðinu, og það gerir Þjóðminjasafnið með miklum sóma hér. Sýningin á verkum Vigfúsar var mér opinberun. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því með hvaða hætti Vigfús hafði skráð samtíma sinn; atvinnulíf sem landshætti – og að hann hafi í raun verið jafn framúrskarandi ljósmyndari og þessi sýning sannar.
Sýningin er kölluð Þjóðin, landið og lýðveldið. Það eru einmitt efnisflokkarnir. Einn er röð formhreinna og nokkuð kaldhamraðra landslagsmynda, meðal annars af jöklum, fossólgu og Hraundranga fyrir ofan Hraunsvatn. Flestar myndanna sýna forsetana Svein Björnsson og Ásgeir Ásgeirsson á ferð um landið og móttökurnar sem þeir fengu. Loks er myndröð um fólkið í landinu, líf þess og störf.
***

Það er margt heillandi við þessa sýn aftur í tímann, sem fólk verður að upplifa. Klassísk er mynd Vigfúsar af kúasmala í Vatnsdal, undir regnboga. Sú mynd fór víða og var lofuð í erlendum fjölmiðlum; sögð „hreinasta listaverk“. Myndirnar af selaveiðum frá Staðarfelli eru merkilegar, ekki síður en bóndinn í Fagradal á fýlaveiðum, ullarþvotturinn á Skútustöðum, síldarsöltunin á Siglufirði eða bjargsigið í Drangey. Sem heimildir eru þessar myndir einstakar, sannkallaður fjársjóður, en fagurfræðilega eru þær líka stórmerkilegar.
Myndirnar af ferðum forsetanna eru líka heillandi, ekki síst frá fyrstu árum lýðveldisins, þar sem hin vonglaða þjóð horfir framan í nýja tíma. Borðar eru strengdir yfir götur, forsetinn fær ábreiðu að gjöf og forsetabíll þarf að bíða meðan fjárrekstur rennur hjá. Forsetabíllinn er sínálægur; merkilegt er að sjá í heimsókn Sveins til Akraness hvernig bíllinn fær „heiðurssæti“ við ræðupúltið.
Svo eru þetta allt „alvöru“ safarík ljósmyndaprent, eins og hæfir myndheiminum. Því ber að fagna.
Það eykur gildi sýningarinnar að safnið gefur út veglegt rit með myndunum og skrifum fræðimanna, um ljósmyndarann og kvikmyndatökumanninn Vigfús. Eins og Inga Lára Baldvinsdóttir, fagstjóri Ljósmyndasafns Íslands, bendir þar á er framlag Vigfúsar til íslenskrar menningarsögu margþætt.
Myndir hans voru einskonar upphafsreitur, sagði Æsa – heimsókn á Þjóðminjasafnið ætti að vera byrjunarreitur frekari kynna almennings af ljósmyndaranum.

Einar Falur Ingólfsson
"Af listum". Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. október, 2008.

Leiftur á stund hættunnar - in LA Museum, Hveragerði


From the series "Aftur". Holtaskóli - Gagnfræðaskóli Keflavíkur, 2007. 100 x 80 cm.Saturday May 2nd Opens in Listasafn Árnesinga - LA Museum - in Hveragerði, a group exhibition with works by eight artists working with the photography medium.
The Artists are Pétur Thomsen, Kristleifur Björnsson, Katrín Elvarsdóttir, Ingvar Högni Ragnarsson, Haraldur Jónsson, Einar Falur Ingólfsson, Gréta S. Guðjónsdóttir and Charlotta Hauksdóttir.
Curator is Sigrún Sigurðardóttir.


From the series "Aftur". The old soccer pitch, Keflavík, 2007.

Tuesday, April 28, 2009

Places - From a Visual Diary 1988-2008


The Kumbh Mela, Allahabad, India. January 24, 2001


From an exhibition in The Reykjavik Museum of Photography, in the summer of 2008.
111 images from various places, from 20 years, pulled from my diary.
http://www.ljosmyndasafnreykjavikur.is/syningar_einarfalur.htm


Biskupstungur, Iceland, 1993.Bollywood Filmstudio, Mumbai, India, 1999.
Potosi, Bolivia, 1995.

Three Shops. The Lesser Three Gorges, by the Yagtze, China, 2000.
Windowlandscape. 42nd Street, New York, 1993.


Windowlandscape. Kumamoto, Kyushu-island, Japan, 1997.
Three Shops. The Andes, Bolivia, 1995; Sucre, Bolivia, 1995; Wuhan, China, 2000.

Hugrún Egla, Minneapolis, Minnesota, 1998.

Paths. Trás-Os-Montes, Portugal, 1998; Bretagne, France, 2000; Gullfoss, Iceland, 1995.
My father's apartment beeing emptied after his death. Keflavik, Iceland, February 1999.