Wednesday, April 29, 2009

Ljósmyndari jökla, kúasmala og forseta

Á sýningunni Draumar um ægifegurð í íslenskri samtímalist, sem Æsa Sigurjónsdóttir listfræðingur setti saman og var sett upp í Brussel og á Kjarvalsstöðum fyrr á árinu, vakti athygli að myndröð eftir Vigfús Sigurgeirsson (1900-1984) var varpað á vegg á milli verka ungra samtímalistamanna. Þetta voru formhreinar landslagsmyndir, fjöll og stuðlaberg, skriðjöklar og eyðisandar.
Þegar ég spurði Æsu um ástæðuna fyrir þátttöku Vigfúsar sagðist hún líta á ljósmyndir hans sem ákveðið arkíf. „Þær eru sýnishorn af þessu ægifagra sjónarhorni sem íslensk landslagsljósmyndun byggist á og síðar varð einhvers konar klisja um Ísland. Þegar Vigfús byrjar að mynda er landið algjörlega ferskt. Myndir hans eru ákveðinn upphafsreitur,“ sagði hún.
Það var forvitnilegt að sjá verk Vigfúsar í fylgd samtímalistamanna, og það er ennþá forvitnilegra að skoða hrífandi sýningu á verkum hans sem var opnuð í Þjóðminjasafni Íslands um síðustu helgi. Ljósmyndasafn Íslands er innan vébanda safnsins og eftir að það fékk afnot af hinum góða myndasal á neðstu hæð safnsins hefur verið sett upp hver áhugaverða sýningin á fætur annarri, með nýrri sem eldri ljósmyndum.

***
Nafn Vigfúsar hefur einkum lifað í sambandi við skráningu hans á starfi fyrstu forseta lýðveldisins, sem hann fylgdi allar götur frá 1944. Einnig hafa menn minnst hans fyrir glæsilegt framlag á heimssýningunni í New York árið 1939, og sem fyrsta íslenska ljósmyndarans sem gaf ljósmyndir sínar út í bókum.
Það er afar mikilvægt að minna reglulega á framlag mikilvægra þátttakanda í listalífinu, sem horfnir eru af sjónarsviðinu, og það gerir Þjóðminjasafnið með miklum sóma hér. Sýningin á verkum Vigfúsar var mér opinberun. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því með hvaða hætti Vigfús hafði skráð samtíma sinn; atvinnulíf sem landshætti – og að hann hafi í raun verið jafn framúrskarandi ljósmyndari og þessi sýning sannar.
Sýningin er kölluð Þjóðin, landið og lýðveldið. Það eru einmitt efnisflokkarnir. Einn er röð formhreinna og nokkuð kaldhamraðra landslagsmynda, meðal annars af jöklum, fossólgu og Hraundranga fyrir ofan Hraunsvatn. Flestar myndanna sýna forsetana Svein Björnsson og Ásgeir Ásgeirsson á ferð um landið og móttökurnar sem þeir fengu. Loks er myndröð um fólkið í landinu, líf þess og störf.
***

Það er margt heillandi við þessa sýn aftur í tímann, sem fólk verður að upplifa. Klassísk er mynd Vigfúsar af kúasmala í Vatnsdal, undir regnboga. Sú mynd fór víða og var lofuð í erlendum fjölmiðlum; sögð „hreinasta listaverk“. Myndirnar af selaveiðum frá Staðarfelli eru merkilegar, ekki síður en bóndinn í Fagradal á fýlaveiðum, ullarþvotturinn á Skútustöðum, síldarsöltunin á Siglufirði eða bjargsigið í Drangey. Sem heimildir eru þessar myndir einstakar, sannkallaður fjársjóður, en fagurfræðilega eru þær líka stórmerkilegar.
Myndirnar af ferðum forsetanna eru líka heillandi, ekki síst frá fyrstu árum lýðveldisins, þar sem hin vonglaða þjóð horfir framan í nýja tíma. Borðar eru strengdir yfir götur, forsetinn fær ábreiðu að gjöf og forsetabíll þarf að bíða meðan fjárrekstur rennur hjá. Forsetabíllinn er sínálægur; merkilegt er að sjá í heimsókn Sveins til Akraness hvernig bíllinn fær „heiðurssæti“ við ræðupúltið.
Svo eru þetta allt „alvöru“ safarík ljósmyndaprent, eins og hæfir myndheiminum. Því ber að fagna.
Það eykur gildi sýningarinnar að safnið gefur út veglegt rit með myndunum og skrifum fræðimanna, um ljósmyndarann og kvikmyndatökumanninn Vigfús. Eins og Inga Lára Baldvinsdóttir, fagstjóri Ljósmyndasafns Íslands, bendir þar á er framlag Vigfúsar til íslenskrar menningarsögu margþætt.
Myndir hans voru einskonar upphafsreitur, sagði Æsa – heimsókn á Þjóðminjasafnið ætti að vera byrjunarreitur frekari kynna almennings af ljósmyndaranum.

Einar Falur Ingólfsson
"Af listum". Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. október, 2008.

No comments:

Post a Comment