Wednesday, April 29, 2009

Kreppan í ljósmyndum

Máttur góðrar og markvissrar heimildarljósmyndunar birtist þeim sem heimsækja sýningarsalinn í kjallara Norræna hússins þessa dagana. Listamennirnir sem þar sýna horfa gagnrýnum augum á Reykjavík dagsins í dag; þetta er höfuðborg á krepputímum.
Þarna má meðal annars sjá formhreinar og konkret myndir Ingvars Högna Ragnarssonar af svæðum í útjaðri höfuðborgarinnar þar sem framkvæmdir stöðvuðust við bankahrunið. Enginn hefur lokið við að rúlla út þökunum, hraðbrautin er komin en engin hús, og stór steinsteypukumbaldi er eins og skotbyrgi með Remax-skilti á.
Pétur Thomsen sýnir einnig byggingarframkvæmdir, en hans húsgrunnar eins og renna saman við ósnortna náttúru. Julia Staples myndar rúðulausa glugga í nýbyggingum, nýjar húsalengjur og enn nýrri grasflatir, og svo eru þarna afar áhrifamiklar myndir eftir Guðmund Ingólfsson af draumasvæði uppbyggingarafla liðinna missera, Borgartúni og Skúlagötu. Myndin af turnunum að rísa við síðarnefndu götuna, með byggingarkrönum og hálfköruðu tónlistarhúsinu, er áhrifamesta kreppumyndin sem ég hef séð hér til þessa.

***

Í gær var greint frá því að ríkið greiddi tvo milljarða um mánaðamótin í atvinnuleysisbætur. Og í gær spurði erlendur ljósmyndari mig að því hvernig maður sýndi kreppu í ljósmyndum. Í listaverkum yfir höfuð. Því er vandsvarað – hver skrásetjari verður að finna sína leið.
Leiðirnar eru margar; það er erfitt, en jafnframt gríðarlega mikilvægt að ástand sem þetta sé skráð, í myndum og textum, og það á markvissan hátt. Þegar ástandið batnar þurfa heimildirnar að vera til, sagan skráð, bæði á hlutlægan og huglægan hátt.
Einn þáttur í þessari heimildaöflun eru fréttaljósmyndirnar sem voru teknar meðan á búsáhaldabyltingunni, sem svo er kölluð, stóð. Þá fóru margir kollega minna á kostum, enda á það að vera köllun fréttaljósmyndarans að segja sögu – hann er í senn að sinna lesendum sínum og að skrá mannkynssöguna.
Síðan er mikilvægt að spyrja: hvernig sýnum við atvinnumissi, fyrirtækin sem verða gjaldþrota, verðbólguna, hjálpina við þá sem eru í nauðum, pólitíkina? Og allt hitt sem þarf að halda til haga?

***

Frægasta dæmið um heimildaskráningu sem þessa er vinna ljósmyndaranna sem FSA-stofnunin í Bandaríkjunum hafði í þjónustu sinni á kreppuárunum. Hlutverk FSA, Farm Security Administration, var að berjast við fátækt til sveita. Á árunum 1935 til 1944 var stofnunin með lítinn hóp ljósmyndara í þjónustu sinni, en hlutverk þeirra var að skrásetja aðstæður fólks í strjálbýlinu. Þótt hópurinn væri fámennur voru þetta engir aukvisar; meðal þeirra voru Walker Evans og Dorothea Lange, einhverjir kunnustu ljósmyndarar aldarinnar. Og fyrir tilstilli þessa fólks, og framsýni stjórnenda, og þá einkum Roy Strykers sem réði þau til starfa og hélt utan um verkefnið, eru til makalausar heimildir um þetta tímabil sögunnar.
Ásamt skáldsögu John Steinbecks, Þrúgum reiðinnar, og heimildaskrifum, á borð við hina kunnu bók Let Us Now Praise Famous Men, sem James Agee skrifaði um ferðir sínar í kreppunni með Walker Evans, þá hafa ljósmyndir FSA-ljósmyndaranna mótað þá ímynd sem kreppan í Bandaríkjunum á fjórða áratug síðustu aldar hefur í hugum manna.

***

Mikið hefur verið skrifað um þennan harðsnúna hóp FSA-ljósmyndara og það er áhugavert að lesa sumt af því í ljósi atburðanna hér á landi á síðustu mánuðum, og spurningarinnar hvernig maður ljósmyndar kreppu. Stryker reyndi ekki að hafa áhrif á það hvernig ljósmyndararnir mynduðu, enda gerir enginn góður mynd- eða ritstjóri slíka kröfu; þá ættu þeir bara að taka myndirnar sjálfir. Hinsvegar sendi Stryker sínu fólki reglulega minnispunkta. Hann taldi heppilegt að „tengja fólkið við landið í myndunum og öfugt“, og svo vildi hann sjá fyrirbæri eins og kirkjur, hlöður, réttarsali. Hann vildi myndir af daglegu lífi farandverkafólks – frægasta myndin sem kom út úr því er „Migrant Mother“ eftir Lange, og hann bað Lange til að mynda að leggja áherslu á matreiðslu, svefnaðstöðu, bænir og félagslíf í myndunum.
Í dag eru þessar ljósmyndir allar varðveittar í bókasafni bandaríska þingsins og það er afar forvitnilegt að skoða þær á netinu, allar eða að hluta; myndirnar eru um 164.000 talsins.
Eftirlætis myndir mínar í því safni eru líklega eftir Walker Evans. Ein þeirra sýnir hvítan timburvegg þar sem nokkrum slitnum hnífum, skeiðum og göfflum hefur verið raðað bak við spýtu. Allt í röð og reglu, þrátt fyrir bágborið efnahagsástandið. Þar er fyrirtaks dæmi um það hvernig mynda má kreppu – þótt við trúum því og treystum að svo slæmt verði ástandið þó aldrei hér.

Einar Falur Ingólfsson
"Af listum". Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. mars, 2009.

No comments:

Post a Comment